Paleo flögur og guacamole

29 Júl

Guacamole er eitt af því besta sem ég fæ. Sérstaklega guacamole-ið sem hægt er að kaupa í Kanada, hjá Valeyju og Guðjóni. Einstaklega safaríkt, frískandi og yndislegt! Og hvað toppar guacamole? Snakk. Klárt mál. Snakk og guacamole er himnasending. En hvað toppar snakk? Hollt snakk! Heldur betur! Svona hollt, paleo snakk.

Í nóvember 2012 tók ég þátt í hinum svo kallaða meistaramánuð. Þar fylgdi ég paleo matarræðinu. Það byggir á hreinu fæðu. Engum unnum mat og veseni. Guacamole er einmitt hreint fæði. En allt annað er uppi á borðinu þegar kemur að snakki. Þar til ég fann uppskrift að hollu snakki. Svona hollu, paleo snakki.

Í dag langar mig að deila með ykkur tveimur uppskriftum. Uppskrift að paleo flögum og uppskrift að guacamole. Galdurinn við paleo flögurnar er að fletja deigið vel út. Gera það þynnra en allt þunnt. Því þynnra – því betra. Galdurinn við guacamole-ið er að eiga nokkur vel valin og vel þroskuð avocado. Það er best að fjárfesta í nokkrum stykkjum og leyfa þeim að þroskast í nokkra daga á eldhúsborðinu. Eða í stofunni, ef þú kýst að geyma avocado-in þín þar.

Image

 

Paleo flögur

2 bollar möndlumjöl

2 eggjahvítur

1/2 tsk salt

1/2 tsk hvítlauksduft

1/2 tsk cumin

1 tsk kókosolía

Cayenne pipar

Aðferð:

Ofninn er hitaður í 170°C. Öllum hráefnunum er blandað saman í hrærivél og deiginu þá skipt í tvo til þrjá hluta. Hver hluti er lagður á milli tveggja arka af bökunarpappír og flattur vel út með kökukefli. Skorið.

Bakað í 10 mínútur, eða þar til gullið. Snúið við, ef óskað er eftir, og bakað í 3 mínútur til viðbótar.

Guacamole

3 avocado, afhýdd og stöppuð

1 lime, safinn

1 tsk salt

1/2 bolli rauðlaukur, saxaður

2 plómutómatar, saxaðir

1 tsk hvítlaukur, kraminn

Cayenne pipar, ef vill.

Öllu blandað vel saman.

Verði ykkur að góðu! 🙂

Láttu í þér heyra