Paleo flögur og guacamole

29 Júl

Guacamole er eitt af því besta sem ég fæ. Sérstaklega guacamole-ið sem hægt er að kaupa í Kanada, hjá Valeyju og Guðjóni. Einstaklega safaríkt, frískandi og yndislegt! Og hvað toppar guacamole? Snakk. Klárt mál. Snakk og guacamole er himnasending. En hvað toppar snakk? Hollt snakk! Heldur betur! Svona hollt, paleo snakk.

Í nóvember 2012 tók ég þátt í hinum svo kallaða meistaramánuð. Þar fylgdi ég paleo matarræðinu. Það byggir á hreinu fæðu. Engum unnum mat og veseni. Guacamole er einmitt hreint fæði. En allt annað er uppi á borðinu þegar kemur að snakki. Þar til ég fann uppskrift að hollu snakki. Svona hollu, paleo snakki.

Í dag langar mig að deila með ykkur tveimur uppskriftum. Uppskrift að paleo flögum og uppskrift að guacamole. Galdurinn við paleo flögurnar er að fletja deigið vel út. Gera það þynnra en allt þunnt. Því þynnra – því betra. Galdurinn við guacamole-ið er að eiga nokkur vel valin og vel þroskuð avocado. Það er best að fjárfesta í nokkrum stykkjum og leyfa þeim að þroskast í nokkra daga á eldhúsborðinu. Eða í stofunni, ef þú kýst að geyma avocado-in þín þar.

Image

 

Paleo flögur

2 bollar möndlumjöl

2 eggjahvítur

1/2 tsk salt

1/2 tsk hvítlauksduft

1/2 tsk cumin

1 tsk kókosolía

Cayenne pipar

Aðferð:

Ofninn er hitaður í 170°C. Öllum hráefnunum er blandað saman í hrærivél og deiginu þá skipt í tvo til þrjá hluta. Hver hluti er lagður á milli tveggja arka af bökunarpappír og flattur vel út með kökukefli. Skorið.

Bakað í 10 mínútur, eða þar til gullið. Snúið við, ef óskað er eftir, og bakað í 3 mínútur til viðbótar.

Guacamole

3 avocado, afhýdd og stöppuð

1 lime, safinn

1 tsk salt

1/2 bolli rauðlaukur, saxaður

2 plómutómatar, saxaðir

1 tsk hvítlaukur, kraminn

Cayenne pipar, ef vill.

Öllu blandað vel saman.

Verði ykkur að góðu! 🙂

Frönsk súkkulaðikaka

25 Júl

Það er fátt sem slær jafn rækilega vel í gegn og frönsk súkkulaðikaka. Sérstaklega vel blaut, volg frönsk súkkulaðikaka. Og það góða er að það er líka einstaklega einfalt að skella í eina slíka.

Þegar ég er að bjóða til veislu, í saumaklúbb eða jafnvel að baka fyrir kaffitímann í vinnunni hjá mér eða öðrum fjölskyldumeðlimum er klassískt að henda í franska súkkulaðiköku. Svo er súkkulaði líka einstaklega gott fyrir sálina 🙂

frönsk

Innihaldsefni:

4 egg

200g smjör

200g suðusúkkulaði

2dl sykur

2dl hveiti

Aðferð:

Egg eru sett í hrærivél og þeytt. Þá er sykri bætt út í og þeytt þar til ljóst og létt. Á meðan er smjör/súkkulaðiblandan útbúin.

Smjörið er sett í hitaþolna skál og í örbygljuofn og hitað þar til bráðnað. Þá er súkkulaðið sett ofan í og hrært í, þar til bráðið.

Smjör/súkkulaðiblöndunni er helt út í eggjablönduna og hrært saman. Að lokum er hveitinu bætt varlega út í með sleikju og blandað vel saman.

Bakist við 175°C í 20-30 mínútur.

Krem:

100g suðusúkkulaði

3 msk rjómi

Aðferð:

Brætt saman í potti við lágan hita, þar til alveg bráðið og blandað. Kælt aðeins og þá smurt yfir kökuna.

Döðlu- og bananabrauð

23 Júl

Föstudagar eru kaffidagar á vinnustaðnum sem ég hef eytt síðustu fjórum sumrum á. Þá tekur einn starfsmaður að sér að sjá um morgunkaffið. Það er mismunandi hvað komið er með, en það samanstendur almennt af brauði, áleggi og einhverju gourmelicious. Þá annað hvort úr næsta bakaríi eða úr eigin smiðju. Einn föstudaginn í sumar fékk ég að bragða á þessu líka stórkostlega döðlu- og bananabrauði. Það einfaldlega bráðnaði upp í mér. Og það besta er: Enginn viðbættur sykur. Hvílík gleði! Það er fátt sem mér dettur í hug sem er betra en heimabökuð gourmeheit, nema að sjálfsögðu heimabökuð gourmeheit með engum viðbættum sykri.

Það er skammt að segja frá því að heimilisfólkið sat ekki í röðum og beið eftir döðlubrauðinu. En það kom hverjum manni á óvart og er nú reglulegur hluti af bakstri heimilisins.

bananabrauð

Döðlu- og bananabrauð 

Innihaldsefni:
200 g döðlur
2,5 dl heitt vatn
2 stk bananar, stappaðir
1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
300 g hveiti
2 stk egg
2 msk olía
1 tsk. vanilludropar

Aðferð:

Döðlurnar eru brytjaðar niður og settar í pott með heita vatninu. Suðan er látin koma upp og látið sjóða í nokkrar mínútur. Blandan er þá kæld á meðan öðrum hráefnum er blandað saman.

Þurrefnum blandað saman, eggjum, olíu og vanilludropum hellt út í og blandað vel saman. Að lokum er döðlublandan sett saman við og öllu hrært vel saman.

Sett í form og bakað við 200°C í 40 mín.

Borið fram með smjöri – eða hverju sem hugurinn girnist.

Oreo Múffur

3 Nóv

Það er líklegt að þessi færsla muni vekja mikla lukku. Oreo múffurnar mínar hafa vakið vinsældir í langan tíma. Bros stekkur á hvert andlit, fiðrildin flögra um í maganum og munnvatnskirtlarnir framleiða sem aldrei fyrr. Ef þú ert hrifin af súkkulaði. Ef þú ert hrifin af Oreo kexi. Ef þú ert hrifin af rjóma. Ef þú ert hrifin af hamingju í kökuformi. Þá eru Oreo múffurnar eitthvað fyrir þig.

Munið þið eftir súkkulaðimúffuuppskriftinni sem ég setti inn þann 18. september? Það er einmitt grunnurinn að Oreo múffunum. Oreo múffur eru einfaldlega súkkulaðimúffur með viðbættu Oreo og rjóma. Og örlitlu aukalega til að gera rjómann meira gourme.

Hér má sjá Oreo múffur og ég læt uppskriftina fylgja – Ef ske kynni að þig langaði líka í hamingju í kökuformi ❤

 

Oreo Múffur

Innihaldsefni:

Súkkulaðimúffur

1 peli rjómi

1/4 pakki Royal vanillubúðingur

2 pakkar Oreo kex

Aðferð:

Bakið súkkulaðimúffur og látið kólna. Þeytið pela af rjóma saman við 1/4 pakka af Royal vanillubúðing. Skerið hvert kex til helminga, þannig að til sé helmingur ofan á hverja múffu. Skafið kremið af afganginu af kexinu, myljið það niður og blandað mylsnunni varlega saman við rjómann.

Rjómanum er sprautað ofan á múffurnar og hálfu Oreo kexi stungið ofan í hann.

Verði ykkur að góðu!

Marengsterta

25 Sep

Móðir mín er alls ekki hógvær þegar kemur að bakstri dótturinnar. Henni finnst einfaldlega ég baka bestu kökur í heimi. Hvorki meira né minna. Það er því ekki auðvelt að afþakka boð um bakstur frá konunni. Ekki vill besti kökubakari í heimi valda vonbrigðum.

Móðir mín bað mig að baka tertu fyrir sig á dögunum. Tertu sem hún ætlaði að taka með sér í vinnuna. Með karamellu. Konan lagði mikla áherslu á að góða, heimatilbúna karamellan væri á tertunni. Það mátti ekki vera súkkulaði í þessari tertu, þar sem móðir mín getur ekki borðað súkkulaði. Og rjómi. Hún borðar rjóma með skeið beint úr hrærivélaskálinni. Terta með karamellu. Og rjóma. Og ekki súkkulaði. Það er marengsterta. Ég tók mig því til og bakaði marengstertu fyrir konuna.

Hér má sjá marengstertu og ég læt uppskriftina fylgja – Ef ske kynni að þig langaði líka til að gleðja móður þína ❤

Image

 

Marengsterta

Innihaldsefni:

Botnar:

3 eggjahvítur

150 g púðursykur

80 g sykur

Karamellubráð:

2 dl rjómi

150 g sykur

40 g síróp

30 g smjör

1/2 dl þeyttur rjómi

Aðferð:

Eggjahvítur stífþeyttar. Þá er púðursykri og sykri bætt út í og þeytt þar til sykur er nánast uppleystur í blöndunni. Skipt í tvennt og smurt út á smjörpappír. Bakað við 150°C í 40 mín.

Rjómi, sykur og síróp sett í pott og á eldavélahellu við miðlungshita. Suðan látin koma upp. Látið sjóða við vægan hita þar til þykkist og dekkist og fer að loða við sleifina. Bætið þá smjörinu saman við og takið pottinn af hitanum. Hrærið þar til smjörið er bráðið. Þá má bæta þeytta rjómanum út í. Kælið í ísskáp þar til karamellan hefur þykknað nóg til að setja ofan á tertuna. 

Samsetning: Marengsbotn, karamella, rjómi (með t.d. jarðarberjum, rifsberjum og bláberjum), marengsbotn og meiri karamella. 

Verði ykkur að góðu!

Súkkulaðimúffur

18 Sep

Ef það er eitthvað sem alltaf slær í gegn er það súkkulaði. Súkkulaðistykki, súkkulaðikökur, súkkulaðibúðingur, súkkulaðiís og… súkkulaðimúffur. Súkkulaði er næring fyrir sálina. Fyllir hvert hjarta af ólýsanlegri hlýju og notalegheitum. 

Þegar kemur að bakstri er þolinmæði mín oft á þrotum. Ég get eytt heilum dögum í að skreyta það sem ég hef bakað og dúllað mér endalaust, en baksturinn sjálfur má ekki taka of langan tíma. Það er ástæðan fyrir því að í því sem ég baka á ekki að „þeyta vel saman smjör og sykur og bæta eggjum við, einu í einu og skafa vel niður á milli“. Ég hef einfaldlega ekki tímann í það. Það er einmitt kosturinn við súkkulaðimúffurnar mínar. Öllu er einfaldlega smellt í skál og hrært. Smellt í form, inn í ofn og voila. Ilmandi súkkulaðimúffur og endalaus gleði.

Hér má sjá súkkulaðimúffur og ég læt uppskriftina fylgja – Ef ske kynni að þig langaði líka í smá hlýju í hjartað ❤

Image

 

Súkkulaðimúffur

Innihaldsefni:

3/4 bolli kakó

1 1/2 bolli hveiti

1 1/2 bolli sykur (eins og þið vitið er ég hrifnari af hrásykrinum)

1 1/2 tsk matarsódi

3/4 tsk lyftiduft

3/4 tsk salt

2 egg

3/4 bolli heitt vatn

3/4 bollar súrmjólk (það er líka hægt að nota aðra mjólk, t.d. fjörmjólk, og bæta þá við smá hveiti til að þykkja deigið)

3 msk matarolía

1 tsk vanilludropar (eða vanillusykur)

Aðferð:

Öllu smellt í skál og hrært þar til slétt og fallegt. Matskeið af deigi sett í hvert múffuform og bakað við 180°C í 20 mínútúr. Ég nota alltaf blástur þegar ég baka.

Þetta gera um 25 ljúffengar súkkulaðimúffur ❤

Verði ykkur að góðu!

Súkkulaðibita“smá“kökur

10 Sep

Það er líklega best að viðurkenna það strax að ég er bökunarfíkill. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af kökum sjálf og þessar 27 súkkulaðibita“smá“kökur sem voru að koma út úr ofninum freista mín ekki. Mér líður einfaldlega vel af að baka. Það er löngu þekkt aðferð hjá mér að skella í einhverja ljúflings uppskrift þegar ég er ekki upp á mitt besta. Það er líka löngu þekkt að ég skelli í kökur þegar ég er upp á mitt besta. Ég er einfaldlega alltaf að baka. Ég baka tertur og múffur og smákökur og pönnukökur og vöfflur og pie og ég veit ekki hvað og hvað. Ég er þó svo heppin að ég á góða vini. Og góða fjölskyldu. Þau eru alltaf tilbúin til að borða kökurnar mínar – Svo ég sitji nú ekki uppi með þér til lengri tíma.

Í dag bakaði ég súkkulaðibita“smá“kökur. Svona af því bara. Ég set „smá“ í gæsalappir því þær eru ekkert smáar. Þær ættu að vera kallaðar súkkulaðibitastórkökur. Þessar kökur lærði ég að baka í sumarbúðum KFUM&K í Vindáshlíð. Sjaldan hef ég hlotið jafn miklar vinsældir og þegar ég bakaði þær fyrir 80 hressar stúlkur. Þetta eru nefninlega bestu súkkulaðibita“smá“kökur í heimi.

Hér má sjá súkkulaðibita“smá“köku og ég læt uppskriftina fylgja – Ef ske kynni að þig langaði líka að baka bestu súkkulaðibita“smá“kökur í heimi ❤

 

Súkkulaðibitasmákökur

Innihaldsefni:

150 g smjör

200 g púðursykur

50 g sykur (ég nota hrásykur)

1 pakki royal súkkulaðibúðingur (það er líka hægt að nota vanillubúðing, ef þið viljið gera kakólausar smákökur)

1 tsk vanillusykur (eða vanilludropar)

2 egg

270 g hveiti

1 tsk matarsódi

150 g brytjað suðusúkkulaði

Aðferð:

Mjúkt smjör og sykur þeytt saman. Þá er hverju innihaldsefni á fætur öðru bætt út í og hrært vel í á milli. Deigið er hnoðað í litlar kúlur sem þá eru flattar út og settar á bökunarplötu. Bakað við 180°C í 10-15 mínútur. Ég nota alltaf blástur þegar ég baka.

Þetta gera um 25 ljúffengar súkkulaðibita“smá“kökur ❤

Verði ykkur að góðu!

Vöfflur & Co.

9 Sep

Það er fátt betra á sunnudags-eftirmiðdegi en nýbakaðar vöfflur. Þegar líkaminn er þreyttur eftir hvíld helgarinnar og það vantar eitthvað örlítið til að fullkomna helgina. Þá eru bakaðar vöfflur á heimili mínu. Í þetta skipti voru bakaðar svona samvinnu vöfflur. Vöfflur sem heimilismeðlimir hjálpast að við að gera. Ég ætla að kalla þær Vöfflur & Co. Þær eru betri en venjulegar vöfflur. Einfaldlega vegna þess að öllum langar í þær, þannig að allir hjálpast að við að búa þær til. Þegar ég var lítil, bakaði ég stundum vöfflur. Það var svo einfalt að fletta upp á blaðsíðu 261 í rauðu uppskriftabókinni hennar mömmu. Eina opnan í bókinni sem er gul. Hinar eru allar hvítar. Það er af því að þessi hefur sögu að geyma. Sögu um Vöfflur & Co.

Hér má sjá Vöfflu & Co. og ég læt uppskriftina fylgja – Ef ske kynni að þú vildir líka fullkomna helgina ❤

 

Vöfflur

Innihaldsefni:

3 dl hveiti

1 tsk lyftiduft

2 msk sykur (það er allt í lagi að sleppa sykrinum)

1/4 tsk salt

2-3 dl mjólk (ég nota alltaf fjörmjólk)

2 egg

3 msk matarolía

1 tsk vanilludropar (eða vanillusykur)

Aðferð:

Allt sett í skál og þeytt vel saman, þar til kekkjalaust. Bakað í vöfflujárni, þar til gullinbrúnar að lit.

Ég mæli með tvöfaldri uppskrift – fyrir sálina ❤

Verði ykkur að góðu!

 

Bláberjamúffur

7 Sep

Móðir mín fór upp í sumarbústað um helgina ásamt systur sinni og móður, henni ömmu Laugu. Það er svo sem ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að upp við bústaðinn okkar, sem ber nafnið Frímerkið, vex aragrúi bláberja. Þær mæðgur tíndu líkt og enginn væri morgundagurinn og tókst ömmu að fylla vænan bauk af bláberjum.

En hvað skyldi gera við öll þessi bláber? Jú, lífsreynda konan tók ekki annað í mál en að þau yrðu ferjuð til nöfnunnar sem skyldi baka úr þeim bláberjamúffur. „Það bakar enginn jafn góðar múffur og hún Guðlaug mín“ hafði móðir mín eftir henni þegar heim var komið.

Ég tók mig því til í vikunni og bakaði þessar dýrindis bláberjamúffur. Ég færði þær ömmu minni, fjölskyldumeðlimum og nokkrum vel völdum skólafélögum. Ég kýs að kalla mig gleðigjafa. Kalla fram bros á vörum þeirra sem mér þykir vænt um, einfaldlega með því að gera það sem mér þykir skemmtilegast – Að baka.

Hér má sjá bláberjamúffu og ég læt uppskriftina fylgja – Ef ske kynni að þú vildir líka vera gleðigjafi ❤

 

Bláberjamúffur

Innihaldsefni:

2 bollar hveiti

2 1/2 tsk lyftiduft

1 bolli sykur (ég kýs að nota hrásykur)

3/4 tsk salt

1/2 bolli mjúkt smjör

2 egg

3/4 bollar mjólk (ég nota alltaf fjörmjólk)

1 tsk sítrónusafi (ekki dropa – en það má nota sítrónubörk í staðinn)

2 bollar bláber (helst frosin, þá maukast þau ekki)

Aðferð:

Öll hráefni sett í skál, að frátöldum bláberjunum og þeytt vel. Bláberin sett saman við með sleikju þegar blandan er orðin fallega slétt. Ein matskeið sett í hvert múffuform, þannig að það sé um það bil 2/3 fullt. Bakað við 180°C í 20 mín. Ég baka alltaf með blæstri 🙂

Þetta gera 24 dásemdar bláberjamúffur ❤

Verði ykkur að góðu!